Bolungarvík - varaaflsstöð og tengivirki


28.02.2017

Framkvæmd

Ný varaaflsstöð Landsnets í Bolungarvík og nýtt tengivirki Landsnets og Orkubús Vestfjarða voru tekin formlega í notkun 28. apríl 2015 ásamt snjallnetskerfi fyrir Vestfirði.

Tilkoma snjallnetsins og varaaflsstöðvarinnar styrkir raforkukerfið vestra verulega og eykur afhendingaröryggi raforku vestra, einkum út frá afhendingarstöðum Landsnets í Bolungarvík, á Ísafirði og í Breiðadal. Nýlunda er að varaaflsstöð þjóni stórum landshluta en afkastageta hennar samsvarar orkunotkun norðanverðra Vestfjarða. Uppsett afl er um 10,8 MW, framleitt með sex dísilvélum.

Snjallnet er samheiti yfir ýmsar tækninýjungar á svið flutnings og dreifingar raforku. Snjallnetið á Vestfjörðum er hið fyrsta sinnar tegundar á landinu en Landsnet er í hópi leiðandi raforkuflutningsfyrirtækja á þessu sviði í heiminum.

Framkvæmdir við varaaflsstöðina og snjallnetið tóku rúm tvö ár og kostuðu um hálfan annan milljarð króna. Undirbúningur hóst 2012, byggingarframkvæmdir hófust sumarið 2013, að afloknu hönnunar, útboðs og samningsferli, og lauk í september 2014. Frágangi tæknibúnaðar lauk í nóvember með umfangsmikilli prófun í rauntíma á öllum búnaði varaaflsstöðvarinnar og virkni snjallnetsins. Varaaflsstöðin og snjallnetið voru tekin í rekstur í desember en formleg athöfn af því tilefni frestaðist til aprílloka 2015 vegna ófærðar og erfiðra veðurskilyrða lengst af vetri.

Í ljósi reynslunnar þótti ástæða til að minnka hljóðmengun frá stöðinni og lauk frágangi vegna þeirra framkvæmda fyrri hluta ársins 2016. Mælingar vinnueftirlits sýna að hljóðstig í byggð næst stöðinni eftir breytingar er um 42dB, sem er svipað hljóðlátu herbergi.
Aftur í allar fréttir